Snorri ehf í Hafnarfirði bauð lægst í gerð færanlegra kennslustofa við hinn nýja Stekkjaskóla í Björkurstykki á Selfossi.
Tilboð Snorra ehf hljóðaði upp á tæpar 424 milljónir króna en næst lægsta tilboðið áttu Eðalbyggingar á Selfossi, rúmar 482 milljónir króna. Kostnaðaráætlun Sveitarfélagsins Árborgar við verkið hljóðar upp á 496 milljónir króna.
Þrjú önnur tilboð bárust í verkið; Múr- og málningarþjónustan Höfn ehf. bauð rúmlega 576 milljónir króna og Ístak hf bauð tæpar 685 milljónir króna. Ístak átti einnig frávikstilboð upp á 628 milljónir króna.
Verkið felst í því að smíða og setja niður tíu færanlegar kennslustofur ásamt tengigangi en heildargólfflötur er 1.100 fermetrar. Kennslustofueiningarnar skulu þannig gerðar að hægt sé að fjarlægja þær með krana og setja niður annarsstaðar þegar þörf á viðbótarkennslurými breytist.
Framkvæmdinni á að vera lokið þann 31. júlí næstkomandi.