Enn dregst að auglýsa eftir nýjum prestum í Selfossprestakall, en ætlunin var að það yrði gert strax upp úr nýliðnum áramótum. Hið sama á í raun við um Eyrarbakka, samkvæmt heimildum blaðsins.
Sömu heimildir segja málið snúast um fjárskort kirkjunnar og að kirkjuráð sé að draga að auglýsa stöðurnar til að „spara fáeinar krónur“ líkt og heimildarmaður orðaði það. Á meðan ekki semst við ríkið um aukna fjármuni eru eignir seldar, jafnvel til að hafa fyrir launum presta. Þá er einnig horft til þess að þeir prestar sem sinna prestakallinu geri slíkt fram yfir fermingar en umsóknarferli og innsetning getur tekið hið minnsta þrjá mánuði.
„Þeir prestar sem nú sinna Selfossprestakalli eru settir til þjónustu fram á vor. Því má búast við breytingum þar í sumar. Hvort bæði embættin verði auglýst þar á sama tíma er ekki afráðið,“ segir Þorvaldur Víðisson, biskupsritari aðspurður um málið. Núverandi settir prestar eru þeir Axel Árnason og Þorvaldur Karl Helgason, sem er sóknarprestur.