Ferðaþjónustufyrirtækið Secret Local Adventures var nýlega stofnað í Hrunamannahreppnum en eigandi þess er Guðmann Unnsteinsson. Hann er búsettur á æskuheimilinu í Langholtskoti.
Guðmann segir að hann hafi verið búinn að ganga með þessa hugmynd í maganum nokkuð lengi en markmiðið sé fyrst og fremst að selja væntanlegum viðskiptavinunum upplifanir.
„Við notum breytta jeppa til að komast að mismunandi náttúruperlum og við leggjum mikið upp úr því að ferðirnar okkar séu fjölbreyttar. Þetta snýst um að vera bæði skemmtilegt og fræðandi og svo er ekki verra að ná að koma fólki á óvart,“ segir Guðmann.
Hann bætir við að þörf sé á þjónustu eins og þessari á svæðinu og þar hafi fjölgun ferðamanna áhrif.
„Það er mikið af vinsælum gistimöguleikum á svæðinu og því mikið af fólki sem dvelur hér. Það er von okkar að ná að höfða til fólks sem hér gistir en okkur langar að lengja dvöl þess með því að bjóða upp á aukna afþreyingarmöguleika. Það er hagur margra að fá ferðamenn á svæðið og geta boðið upp á fjölbreytta afþreyingu.“
Að sögn Guðmanns eru nokkrar náttúruperlur á svæðinu sem eru lítið þekktar. Hann segir að eitt af markmiðum hans sé að bjóða upp á ferðir á staði sem ekki eru í alfaraleið og þar af leiðandi eru ekki margir ferðamenn þar á sama tíma.