Hjólaklúbburinn Hjólvitlausar hélt nýverið upp á 30 ára afmælið sitt í Tryggvaskála á Selfossi. Hjólvitlausar var upphaflega stofnað af starfsmönnum Heilbrigðisstofnunnar Suðurlands. Síðan þá hafa vinkonur og fleiri bæst í hópinn.
„Við fórum fyrstu ferðina okkar fyrir 30 árum. Þá fórum við á Hvolsvöll, aðra leiðina og létum trússa okkur heim. Það voru margir sem höfðu enga trú á því að þetta myndi ganga,“ segir Sigríður Kristín Jóhannsdóttir, einn af stofnendum hópsins, í samtali við sunnlenska.is.
Húfan fauk út í Þjórsá
Sigríður segir að margt hafi breyst síðan þær byrjuðu að hjóla fyrst. Til að mynda var enginn með hjálm fyrir þrjátíu árum. „Ein okkar lenti í því að það fauk af henni derhúfan og alla leið út í á þegar við vorum að hjóla yfir Þjórsá. Við vorum allar hjálmlausar,“ segir Sigríður um þessa fyrstu ferð hópsins.
Sigríður segir að fyrsta ferð hópsins hafi gengið vel. „Fyrir ferðina þá æfðum við okkur einu sinni í viku. Og síðan þá höfum við gert það yfir sumarmánuðina að hjóla einu sinni í viku. Þá hittumst við á þriðjudagskvöldum og hjólum oft í kringum Selfoss. Svo förum við í eina langa ferð á sumrin og gistum.“
„Njóta en ekki þjóta er svolítið kjörorðið hjá okkur. Við erum ekki að taka þátt í hjólreiðakeppnum heldur er þetta samvera og útivist,“ segir Sigríður.
Hjóla um allan heim
Hópurinn lætur sér ekki nægja að hjóla bara innanlands eða á fastalandinu. „Við erum búnar að fara fjórum sinnum erlendis og þrisvar sinnum til Vestmannaeyja. Ferðin inn í Þórsmörk sem við fórum fyrir sirka tíu árum stendur upp úr. Þá urðum við að fara með hjólin yfir árnar og eina leiðin til að komast yfir með hjólin var að við færum tvær og tvær saman yfir með eitt hjól. Stundum eru þessar hjólaferðir hálfgerð óvissa hjá okkur en stundum erum við búnar að panta gistingu og plana svolítið.“
„Makarnir hafa komið með þegar við förum erlendis en svo hafa þeir verið að trússa og hjálpa okkur – verið með hestakerru, sótt hjólin og þess háttar,“ segir Sigríður en hópurinn hefur farið þrisvar sinnum til Ítalíu og einu sinni til Belgíu.
Sigríður, sem varð sjötug í apríl, hjólar mikið á hverjum degi enda á fólk oft erfitt með að trúa að þessi hrausta kona fylli sjö tugi. „Ég hjóla yfirleitt allt það sem ég þarf að ná í og gera og nota hjólareiðarstíginn sem liggur meðfram Eyrarbakkavegi óspart. Fólk er farið að hjóla miklu meira.“
Nær umhverfinu á hjóli
Það er ekki bara líkamleg heilsa sem hefur ávinning af hjólreiðunum. „Félagaslega er þetta líka mjög dýrmætt – að hittast og spjalla. Og þegar þú ert á hjóli þá hittir þú fólk og talar við það. Þegar þú ert á bíl þá í mesta lagi veifar þú og flautar. En þegar þú ert á hjóli þá heyrir þú í fuglunum og ert nær umhverfinu. Njóta en ekki þjóta – vera ekki að flýta sér. Maður kemur bara endurnærður heim.“
Sigríður starfaði sem hjúkrunarfræðingur á HSU þar sem vaktirnar voru oft langar og strangar. „Það kom fyrir að ég kom þreytt heim úr vinnunni og hjólaði heim í Sandvík en það var ekki nóg. Ég hélt þá áfram niðureftir í Kaldaðarnes og stoppaði þar við ána. Ég settist á sömu þúfuna og lokaði augunum og slakaði á. Kom svo heim og þá var ég endurnærð. Andleg þreyta – þú sefur hana kannski ekki úr þér – en að vera út í náttúrunni og heyra í fuglunum, það endurnærir mann.“
„Ég hvet alla til að nota þessa fínu hjólastíga sem eru komnir innan Selfoss og í kringum Selfoss og hjóla. Ég fór til dæmis um helgina út í Hellisskóg og þar mætti ég fjölskyldu hjólandi. Þetta er að aukast, ég sé það. Og það þarf ekki að fara langt – bara vera með fjölskyldunni sinni, vera saman,“ segir Sigríður að lokum.