Eins og sunnlenska.is hefur greint frá gerði lögreglan á Selfossi upptæka 172 lítra af landa í Hrunamannahreppi í síðustu viku.
Því til viðbótar voru um 800 lítrar af miði í brúsum og fötum sem reyndist óáfengt.
Í dagbók lögreglu kemur fram að yfirgengilegur sóðaskapur hafi verið við bruggunina og framleiðsluna sem var mjög frumstæð. Gambrinn var soðinn í potti á eldavél og munu afköstin hafa verið um hálfur lítri á dag.
Karlmaður var handtekinn og færður til yfirheyrslu þar sem hann viðurkenndi framleiðsluna en sagðist ekki hafa ætlað að selja landann heldur geyma og eiga til góða í vöruskipti ef svo færi að dollar og evra myndu hrynja síðar meir.
Þá greindi hann frá því að hann gæfi hundinum smá gambra út í matinn sinn, það þætti honum gott.