Soffía Sigurðardóttir, húsfreyja á Selfossi, býður sig fram til flokksvals Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi og stefnir á þriðja sæti listans.
„Ég vil taka með afgerandi hætti þátt í því að byggja upp breytt og bætt samfélag á Íslandi og gæta þess að eftir Hrun verði ekki endurreist það óréttláta og feyskna hrófatildur sem hrundi,“ segir Soffía í tilkynningu sem hún sendi frá sér í dag.
„Hagstjórn er brýnasta úrlausnarefni næstu ríkisstjórnar. Vel byggt hús hrynur ekki og vel byggt efnahagskerfi hrynur ekki. Grundvöllur góðrar hagstjórnar er að skilja hvað felst í því lögmáli að maturinn á disk þinn kemur frá náttúrunni og fæst með vinnu. Þetta hefur lífsreynslan kennt mér og þetta sama lærði ég af venjulegu fólki út um allt Suðurkjördæmi, þegar ég ferðaðist hér um fyrir fáeinum árum með hljóðnema, myndavél og skrifblokk og hlustaði á fólkið í landinu,“ segir Soffía ennfremur.
„Jafn mikilvægt og það er að tryggja að náttúran geti enn brauðfætt okkur, þá er okkur nauðsynlegt að verja eignarhald okkar og nýtingarrétt á náttúruauðlindum. Þjóðareign á auðlindum og skynsamleg nýting þeirra er frumforsenda undir sjálfstæðu ríki á Íslandi. Um allt annað megum við takast á, en þetta verðum við að tryggja.
Við þurfum að efla raunverulega verðmætasköpun í gegnum framleiðslugreinar og auka verðmæti útflutnings, treysta lýðræði , jafnrétti og mannréttindi með frelsi einstaklinga, tryggja velferð allra íbúa með samábyrgð og samþykkja að deila kjörum hvert með öðru í meðbyr sem mótbyr.
Ég hef ákveðið að standa upp og bjóða fram krafta mína til að vinna með fólki og fyrir fólk sem vill byggja réttlátt þjóðfélag á traustum efnahag.“