Lögreglan á Selfossi fékk tilkynningu um sérkennilegt aksturslag ökumanns á Þrengslavegi eftir hádegi í gær, sunnudag. Skömmu síðar kom lögregla að þar sem bifreiðin var utan vegar og ökumaður undir stýri.
Vitni sem höfðu nýlega mætt bifreiðinni sáu að eftir mætingu fór ökumaður yfir á rangan vegarhelming og útaf veginum. Ökumaðurinn bar við að hafa sofnað við aksturinn og misst af veginum. Hann er hins vegar grunaður um að hafa verið undir áhrifum fíkniefna. Á honum fannst lítill skammtur af kannabis. Til viðbótar var hann ekki með ökuréttindi hafði verið sviptur þeim.
Þá varð bílvelta á Biskupstungnabraut við Kjóastaði semma í gærmorgun. Þrír voru í bifreiðinni. Farþegi var fluttur á slysadeild í Fossvogi. Hann reyndist með minni háttar meiðsli og var útskrifaður eftir skoðun og aðhlynningu. Ökumaður var grunaður um ölvun.
Um helgina voru tveir ökumenn kærðir fyrir ölvunarakstur og einn fyrir fíkniefnakstur. Lögreglumenn hafa undanfarið fylgst grannt með notkun öryggisbelta og farsíma. Þar hefur pottur verið víða brotinn og segir lögregla brýnt að hvetja ökumenn til að nota öryggisbeltin en ekki símana nema að hafa handfrjálsan búnað.