Björgunarfélag Árborgar fékk í morgun afhentan ágóða af góðgerðardögum sem haldnir voru í Sunnulækjarskóla á Selfossi í síðustu viku.
„Þegar við fréttum að nemendurnir ætluðu að styrkja okkur þá vorum við að velta fyrir okkur að kaupa sjúkrabörur fyrir peninginn, sem kosta um 100.000 krónur. Þá var okkur sagt að við yrðum að kaupa okkur eitthvað dýrara, eða þá margar sjúkrabörur,“ sagði Björgvin Óli Ingvarsson, stjórnarmaður í Björgunarfélagi Árborgar, þegar hann ávarpaði nemendur skólans í morgun.
Það var hárrétt því ágóðinn af góðgerðardögunum var rúmlega ein og hálf milljón króna, 1.503.274 kr.
„Þannig að við ákváðum að kaupa nýtt jet-ski, sem við notum til þess að bjarga fólki úr Ölfusá og víðar. Gamla jet-skiið okkar er orðið gamalt og kominn tími á að skipta því út. Þannig að, til hamingju, þið keyptuð handa okkur nýtt jet-ski,“ sagði Björgvin Óli ennfremur við nemendurna.
Á góðgerðardögunum föndruðu nemendur Sunnulækjarskóla margskonar jólaskraut og seldu það svo á veglegum markaði í Baulu, íþróttahúsi skólans. Í Fjallasal voru seldar veitingar og rann allur ágóðinn af sölunni beint til Björgunarfélagsins.
Góðgerðardagarnir í Sunnulækjarskóla hafa styrkt fjölmörg verkefni í samfélaginu á síðustu árum, meðal annars Krabbameinsfélag Árnessýslu og Sjóðinn góða.