Þessa dagana eru birkifræ að mestu orðin þroskuð á trjám og má safna fræi fram í lok október eða lengur eftir því hvernig tíðarfar verður.
Hentugasti söfnunartíminn er á þurrum sólríkum haustdögum þegar lauf er að mestu fallið af trjánum, en fræin sitja eftir. Sökum þess hversu seint voraði í ár þroskaðist birkifræ heldur seinna en oft áður. Minna er af fræi á trjánum en oft áður, en þó má finna tré víða um land sem þakin eru fræi.
Verður fræjunum sem safnast dreift á hentug svæði á Hekluskógasvæðinu í haust þar sem þau munu spíra á næstu árum. Árangur sáninga á birkifræi tekur nokkur ár að koma í ljós en reynsla af slíkum sáningum á Hekluskógasvæðinu er nú þegar allgóð og má sjá töluvert af birkiplöntum á svæðum sem fræi var dreift á fyrir 6-7 árum.
Hekluskógar hvetja almenning til að safna birkfræjum og koma til Hekluskóga í Gunnarsholti eða Endurvinnslunnar á höfuðborgarsvæðinu í móttökustöðvum í Knarrarvogi, Hraunbæ og Dalvegi.