Söguleg stund hjá Héraðsdómi Suðurlands

Kristrún Elsa Harðardóttir (lengst t.v.) ásamt kollegum sínum þeim Sögu Ýrr Jónsdóttur, Orra Sigurðssyni, Sigurði Freyr Sigurðssyni og Jónínu Guðmundsdóttur í Héraðsdómi Suðurlands í gær. Ljósmynd/Aðsend

Söguleg stund var hjá Héraðsdómi Suðurlands í gær þegar fyrsta skýrslutaka af sakborningi við aðalmeðferð máls var tekin í gegnum fjarfundabúnað.

Þetta er í fyrsta sinn sem það er gert við Héraðsdóm Suðurlands en þessi leið var notuð í fyrsta skipti á Íslandi í Héraðsdómi Reykjaness í síðustu viku. Fjarfundabúnaður hefur verið notaður í Héraðsdómi Reykjavíkur og Reykjaness áður en þá í fyrirtökum mála.

Að sögn Kristrúnar Elsu Harðardóttur, lögmanns, var ákveðið að hafa skýrslutökuna með þessu sniði þar sem allir sakborningar utan tveggja eru búsettir erlendis.

„Það hefði bæði verið tímafrekt og kostnaðarsamt að láta þau koma til landsins til að gefa skýrslu fyrir dómi, þar sem þau hefðu þurft að sæta sóttkví. Því var ákveðið að fara þessa leið. Heimild til að haga þessu á þennan veg var veitt með bráðabirgða undanþáguákvæði við sakamálalögin vegna kórónuveirufaraldursins og gildir til 1. október næstkomandi,“ segir Kristrún í samtali við sunnlenska.is.

„Skýrslutökurnar gengu vonum framar og í raun án nokkurra vandkvæða. Það kom á óvart,“ segir Kristrún en þess má geta að notaður var fjarfundarbúnaðurinn Microsoft Teams.

Vonandi fest í lög varnanlega
Kristrún segist eiga von á að áfram verði notaður fjarfundarbúnaður til skýrslutöku þegar þess þarf. „Mér finnst það líklegt, því þar sem þetta gengur vel þá mun dómskerfið vonandi halda áfram í átt til framtíðar. Það er reiknað með að heimildin verði framlengd en vonandi verður hún fest í lög varanlega.“

COVID-19 hefur haft mikil áhrif á öll dómsmál á Íslandi síðan faraldurinn hófst. „Þegar fyrsta bylgja faraldursins gekk yfir stoppuðu meira og minna allar aðalmeðferðir í málum og einnig frestuðust einhverjar fyrirtökur. Málið sem var flutt í gær átti til dæmis upprunalega að flytja í mars síðastliðnum en var frestað vegna takmarkana sem settar voru af dómstólasýslunni.“

Erfitt að geta ekki tekið í höndina á fólki
Kristrún og samstarfsfélagar hennar hafa ekki farið varhluta af áhrifum COVID-19  frekar en aðrar stéttir í samfélaginu. „Öllum fundum er haldið í lágmarki og notast við fjarfundabúnað að miklu leyti þegar hægt er. Svo þykir mér alveg agalegt að geta ekki tekið í höndina á skjólstæðingum og kollegum. En það er aðeins farið að venjast,“ segir Kristrún að lokum.

Fyrri greinHSU hlaut styrki fyrir tvö nýsköpunarverkefni
Næsta greinLeikskólabörn í Flóahreppi í sóttkví