Síðastliðinn þriðjudag skrifaði ríkið undir sóknaráætlanasamninga við átta landshlutasamtök sveitarfélaga til næstu fimm ára.
Eyjólfur Ármannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og fulltrúar landshlutasamtakanna undirrituðu samningana í Norræna húsinu.
Markmiðið með sóknaráætlunum er að stuðla að jákvæðri og sjálfbærri byggðaþróun, treysta stoðir menningar, efla atvinnulíf og nýsköpun, styðja við áherslur um umhverfis- og loftslagsmál og auka þannig samkeppnishæfni landshluta og þar með landsins alls. Þá er markmiðið einnig að efla samráð hjá stjórnvöldum og milli landshluta og tryggja gagnsæi við úthlutun opinberra fjármuna.
Tæpar 142 milljónir króna til Sóknaráætlunar Suðurlands
Framlög ríkisins til Sóknaráætlunar Suðurlands árið 2025 nema samtals 127,4 milljónum króna og framlög sveitarfélaganna á Suðurlandi samtals 14,4 milljónum króna. Heildarframlög ríkis og sveitarfélaga til verkefnisins nema því 141,8 milljónum króna.
Sóknaráætlanir landshluta eru stefnumótandi áætlanir sem fela í sér stöðumat viðkomandi landshluta, framtíðarsýn, markmið og aðgerðir til að ná þeim markmiðum. Markmiðið er að ráðstöfun fjármuna sem varið er til verkefna í einstökum landshlutum á sviði samfélags-, umhverfis- og byggðamála byggi á áherslum heimafólks.
Stórefla byggðir landsins með virkri þátttöku heimafólks
„Sóknaráætlanir landshluta hafa sannað gildi sitt í gegnum tíðina. Tilgangurinn er að stórefla byggðir landsins með virkri þátttöku heimafólks. Mikilvægt er að fólkið sem þekkir best til aðstæðna í sinni heimabyggð taki ákvarðanir um nýtingu fjármuna sem varið er til einstakra landshluta. Einungis þannig tryggjum við framgang sóknaráætlana og eflum byggðaþróun í landinu,“ segir Eyjólfur Ármannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, framkvæmdastjóri SSNE og talskona landshlutasamtakanna, tekur undir þetta og segir sóknaráætlanirnar hafa gefið góða raun og aukið samráð á sviði byggðamála. „Þannig hefur samráð innan landshluta og á milli þeirra stóraukist, sem og samráð milli ráðuneyta og stjórnsýslustiga,“ segir Albertína.