„Þrengt hefur verulega að fjárhag sókna með því að ríkisvaldið hefur einhliða ákveðið að lækka sóknargjöldin sem er tekjustofn þeirra,“ segir Eiríkur Jóhannsson sóknarprestur í Hrunaprestakalli.
Eiríkur ritaði nýlega pistil í fréttabréfið Pésann á Flúðum þar sem þetta kemur fram.
„Þetta eru félagsgjöld þeirra sem tilheyra tiltekinni sókn,“ heldur sr. Eiríkur áfram og bendir á að hið opinbera bauðst til þess fyrir rúmum tuttugu árum „að innheimta sóknargjöldin en áður var það verkefni sóknarnefndanna sjálfra eða þær sömdu við sveitarfélögin að sinna því. Meginatriðið er því, að þetta er frjálst félagsgjald en á ekki að teljast hluti af skattheimtu hins opinbera.“
Sr. Eiríkur sagði í samtali við Sunnlenska að hann hefði orðið var við mikinn misskilning á eðli sóknargjalds. Hér áður fyrr var jafnvel gengið í hús og gjaldið rukkað inn með þeim hætti. „Heimtur voru ekki alltaf góðar og sóknirnar voru himinlifandi þegar ríkið tók að sér innheimtuna en grundvallaratriðin eru samt sem áður þau sömu. Þetta er ekki stuðningur ríkisins við kirkjuna eins og margir halda og jafnvel aðilar innan kirkjunnar. Það sama gildir raunar um kirkjugarðsgjaldið“ segir sr. Eiríkur „sem tengist ekki kirkjunni heldur rennur það til kirkjugarðanna því allir eiga rétt á legstað óháð trúfélagi.“
Litlu söfnuðurnir hafa lítið umleikis segir sr. Eiríkur ennfremur og ef horft er til framtíðar óttast hann að ekki verði til fjármunir til að sinna viðhaldi og að til dæmis geti kirkjur sem komnar eru til ára sinna og hafa verið friðaðar skaðast. Hann bendir líka á að laun organista eru stærsti einstaki kostnaðarliður litlu sóknanna. Það er gjarnan metnaðarmál fyrir sóknirnar að halda sínum kirkjukór úti og að hafa organista en annað hvort er að draga saman eða að fólk leggi þessu starfi lið.
Gegnumsneitt er ástandið þokkalegt í Árnessýslu því engin sókn er mjög skuldsett segir sr. hann. „Ekki búið að fjárfesta fram úr hófi líkt og víða í Reykjavík.“ Jöfnunarsjóður kirkjunnar fer nánast allur í að aðstoða sóknirnar sem eiga í slíkum fjárhagsörðugleikum.