Sveitarfélagið Árborg og Sólheimar hafa ákveðið að leita til Ríkissáttasemjara og fá aðstoð hans við að koma á samningi þeirra á milli um starfsemi Sólheima og greiðslur vegna hennar.
Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Árborgar, segir í fréttum RÚV að þetta sé líklega til marks um hve viðræðurnar séu erfiðar. En sömuleiðis að mikill vilji sé á báða bóga að leysa málið á viðunandi hátt.
Fyrsti fundurinn verður á morgun. Stefnt er að því að samkomulag náist fyrir mánaðamót. Ásta segir óvíst að það takist en reynt verði að ná sáttum eins fljótt og auðið er.