Sólheimar senda ráðherra tillögu að samkomulagi

Framkvæmdastjórn Sólheima sendi félagsmálaráðherra í dag tillögu að samkomulagi um lausn á máli Sólheima vegna fyrirhugaðs flutnings málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga.

Í fréttatilkynningu frá Sólheimum segir að félagsmálaráðherra hafi ekki enn svarað ályktun fulltrúaráðs Sólheima né bréfi framkvæmdastjórnar frá 2. nóvember. Í ályktun fulltrúaráðsins kom fram að verði breytingar á lögum um málefni fatlaðra samþykktar er brostinn grundvöllur fyrir starfi Sólheima að þjónustu við fatlaða nema því aðeins að ríkið tryggi þjónustu Sólheima í búsetu og atvinnumálum fatlaða. Verði það gert með samkomulagi sem grundvallist á mati á kostnaði og þjónustuþörf fatlaðra. Framkvæmdastjórn Sólheima tilkynnti ráðherra jafnframt að Sólheimar væru reiðubúnir jafn skjótt og samkomulag lægi fyrir að gera samning við jöfnunarsjóð sveitarfélaga til ársloka 2014.

Sólheimar voru eina þjónustuúrræði fyrir fólk með þroskahömlun á Íslandi í nær 15 ár og hafa allt frá stofnun starfað á landsvísu og aldrei verið svæðisbundið úrræði í þjónustu við fatlaða. Er flutningur málefna fatlaðra fór fram í Svíþjóð og Noregi þótti sjálfsagt að tryggja framtíð systrasamtaka Sólheima.

Rekstraröryggi Sólheima hefur verið ótryggt m.a. vegna þess að síðustu átta ár hefur ekki verið gert mat á þjónustuþörf fatlaðra þrátt fyrir skýr ákvæði í lögum um að slíkt eigi að gera árlega. Þá hafa fjárveitingar til Sólheima verið skertar tvöfalt meira en til annarra aðila sem veita þjónustu í búsetu og atvinnumálum fatlaðra.

Í bréfi framkvæmdastjórnar til félagsmálaráðherrra kemur fram skýr vilji farmkvæmdastjórnar Sólheima um að ganga til samninga við ráðuneytið nú þegar, enda skammur tími til stefnu þar sem fulltrúaráð Sólheima hefur falið framkvæmdastjórn að hefja undirbúning að breytingum á rekstri Sólheima eigi síðar en þann 1. desember nk.

Fyrri greinBirna Kristbjörg: Framboð til stjórnlagaþings
Næsta greinOpið fyrir hugmyndir