Þjófarnir þrír sem brutust inn í ferðamannaverslunina á Geysi gengu hreint til verks og stálu milljónavirði af útivistarfatnaði á skömmum tíma.
Mennirnir brutu upp hurð bakatil í húsinu kl. 2:40 aðfaranótt laugardags. Öryggismyndavélar á Geysi sýna að mennirnir gengu hreint til verks og stoppuðu stutt við í versluninni. Þeir komu svo aftur í verslunina 55 mínútum síðar, um kl. 3:35, og létu greipar sópa í annað sinn.
Lögreglan áætlar að söluvirði þýfisins út úr búð sé öðru hvoru megin við fjórar milljónir króna.
Tæpt ár er síðan þjófar létu greipar sópa í versluninni á Geysi. Sá þjófnaður átti sér stað á opnunartíma og náðust myndir af þjófunum á öryggismyndavélar svo að málið upplýstist fljótlega.
Málið er í rannsókn og biður lögreglan alla þá sem veitt geta upplýsingar um mannaferðir á fyrrgreindum tíma við eða á Geysissvæðinu að hafa samband í síma 480 1010.