Sorp frá Suðurlandi flutt til brennslu í Evrópu

Sorp var urðað í Kirkjuferjuhjáleigu í Ölfusi til ársins 2009. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Sveitarfélög á Suðurlandi áforma að senda sorp frá svæðinu utan til brennslu í evrópskum sorpbrennslustöðvum í framhaldi af þeirri ákvörðun SORPU að hætta að taka við sunnlensku sorpi til urðunar í Álfsnesi.

Samhliða þessu eru aðgerðir hafnar til að auka flokkun úrgangs á upprunastað til að tryggja að auðlindir í úrganginum nýtist sem best.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Sorpstöð Suðurlands sem birt er á Facebooksíðu Grímsnes- og Grafningshrepps.

Leit að urðunarstað hefur ekki borið árangur
Frá árinu 2009 hefur óflokkaður úrgangur frá sveitarfélögum á Suðurlandi verið fluttur til urðunar í Álfsnesi í samræmi við samkomulag SORPU og Sorpstöðvar Suðurlands, sem gengið var frá í framhaldi af lokun urðunarstaðar Sunnlendinga í Kirkjuferjuhjáleigu í Ölfusi árið 2009. Síðustu misseri hefur móttaka úrgangsins verið háð skilyrðum af hálfu SORPU, m.a. um að Sunnlendingar leggi til urðunarstað fyrir hluta af þeim úrgangi sem til fellur á höfuðborgarsvæðinu. Leit Sunnlendinga að urðunarstað hefur ekki enn borið árangur og því telja forsvarsmenn SORPU að forsendur samkomulagsins séu brostnar.

Þar sem enginn urðunarstaður er á Suðurlandi og urðunarstaðir í öðrum landshlutum að mestu fullnýttir, varð niðurstaðan sú að útflutningur á þessum hluta úrgangsins væri vænlegasti kosturinn, þrátt fyrir kostnaðarauka sem því fylgir.

„Nægur markaður er fyrir orkuríkan úrgang í sorporkustöðvum í Evrópu, en brennsla í slíkum stöðvum hefur það fram yfir urðun að orkan úr úrganginum nýtist og kemur í stað orku úr jarðefnaeldsneyti. Athuganir benda til að kolefnisspor útflutningsins sé hverfandi miðað við þann ávinning sem fæst með orkunýtingunni,“ segir í fréttatilkynningunni.

Brún tunna í öll sveitarfélög
Þau sveitarfélög á Suðurlandi sem flokka ekki sérstaklega lífrænan úrgang í brúna tunnu munu taka upp þá flokkun innan hálfs árs. Jafnframt verður gert átak í sérsöfnun annars endurvinnsluefnis, einkum pappa og plastumbúða á Suðurlandi til þess að lágmarka það magn sem senda þarf utan til brennslu.

Undirbúningur útflutningsins mun taka nokkra mánuði en á vegum Sorpstöðvar Suðurlands er nú unnið að bráðabirgðalausnum til að tryggja viðunandi meðhöndlun úrgangsins þar til útflutningur hefst. Vonast er til að útflutningur hefjist ekki síðar en 1. júlí næstkomandi en jafnframt verður unnið áfram að leit að urðunarstað á Suðurlandi, en með aðaláherslu á úrgang sem fellur til innan svæðisins.

Fyrri greinBÁ tekur að sér kennslu í eldvarnareftirliti
Næsta greinArctic Adventures og Into the Glacier sameinast