Sveitastjórn Grímsnes- og Grafningshrepps hefur ákveðið að breyta tilhögun á sorphirðu í sumarhúsahverfum.
Tekur hreppurinn að sér að leigja og dreifa sorpílátum um sveitina á hentugum stöðum í grennd við sumarhúsahverfin. Í fundargerð síðasta sveitastjórnarfundar var tiltekið að það verði tekið tillit til kostnaðarauka í álagningu sorphirðugjalda ársins 2011. Sorphirðugjald er lagt á með fasteignagjöldum.
Að sögn oddvitans Gunnars Þorgeirssonar er óhjákvæmilegt að hækka sorphirðugjald en hann treysti sér ekki til þess að segja hve mikið það yrði. ,,Það breytir nokkru að okkur er gert að hafa fleiri sorpílát en lagt var af stað með í upphafi,“ sagði Gunnar en hann sagði að hér væri stuðst við niðurstöðu Úrskurðarnefndar hollustuhátta og mengunarvarnarmála.