Sóttu þreyttan göngumann

Björgunarsveitir úr Rangárvallasýslu hafa í dag aðstoðað ferðafólk í vanda á Laugaveginum og við Kirkjufellsós austan við Landmannalaugar.

Björgunarsveitamenn úr Rangárvallasýslu sóttu í dag mann á Laugaveginn, gönguleiðinni milli Þórsmerkur og Landmannalauga. Var maðurinn orðinn afar þreyttur og treysti sér ekki til að ganga lengra. Björgunarsveitir fóru á þremur bílum á svæðið þar sem mikið vatn er í ám og því óráðlegt að vera einbíla á ferð.

Fyrr í dag drógu meðlimir Björgunarsveitarinnar Dagrenningar á Hvolsvelli bíl upp úr Kirkjufellsósi á Landmannalaugasvæðinu. Hópur frá sveitinni var í vinnu í dag við að stika gönguleiðina á Fimmvörðuháls en þurfti frá að hverfa til að flytja blautt göngufólk niður að Skógum.

Slysavarnafélagið Landsbjörg vill benda fólki á breyttar veðurhorfur á hálendinu. Þar fer nú ört kólnandi og má reikna með mikilli úrkomu og jafnvel snjókomu á næstu dögum. Fólk er því beðið um að búa sig vel í haustveðrinu og gæta fyllstu varúðar áður en lagt er í lengri gönguferðir. Ökumenn gæti sérstakrar varúðar þegar þvera þarf ár þar sem þær eru margar hverjar afar vatnsmiklar vegna mikilla rigninga.

Fyrri greinGuðmunda í A-landsliðið
Næsta greinMinningarsteinn afhjúpaður í Miðdal