Björgunarsveitin Víkverji í Vík í Mýrdal sótti nú síðdegis ferðafólk sem var í vanda í aftakaveðri á Sólheimaheiði.
Um var að ræða 11 manns sem voru á ferð í Econoline bifreið og misstu þeir hana út af veginum. Bíllinn var fastur og hallaði mikið en valt þó ekki.
Tveir bílar frá björgunarsveitinni fóru á staðinn og fluttu fólkið til byggða. Aftakaveður reyndist á staðnum og lítið sem ekkert skyggni og þurftu björgunarsveitamenn að ganga á undan bílunum á leið niður af heiðinni sem var flughál.
Ferðalangarnir voru komnir heilir í hús um klukkan 18 í kvöld.