Síðdegis í dag barst björgunarsveitum aðstoðarbeiðni frá tveimur ferðalöngum sem voru að ferðast á gönguskíðum að Fjallabaki.
Tjald ferðalanganna hafði gefið sig í því veðri sem geisaði á þessum slóðum og voru þeir orðnir blautir og kaldir. Fólkið hafði verið á göngu í 10 daga og var nánast komið á leiðarenda.
Björgunarsveitir frá Hellu og Hvolsvelli fóru á 4 bílum með vélsleða, en staðsetning ferðalanganna var samkvæmt neyðarkalli þeirra rétt norðan Hnausapolls skammt frá Landmannalaugum.
Talsverður krapi var á leiðinni inn úr en ferð sveitanna sóttist vel og upp úr klukkan 18 í kvöld fannst fólkið, á þeim stað sem neyðarsendingin gaf upp sem staðsetningu. Þau voru þokkalega á sig komin, en blaut og köld, og voru fegin að komast í hlýjan bíl björgunarsveitar og komast þar í þurr föt.
Þegar björgunarfólk kom á vettvang var veður tekið að versna til muna og skyggni minnka með talsverðri snjókomu. Það var því happ að fólkið hafi ekki dregið að óska hjálpar. en ferð bíla gekk áfallalaust.
Hópurinn er á leið til byggða þar sem gönguskíðafólkið mun komast á hótel á Hellu.