Hvítasunnuhelgin var annasöm hjá þyrlusveit Landhelgisgæslunnar sem var kölluð fimm sinnum út.
Á laugardag var vélsleðamaður sóttur í Skálpanes, austur af Langjökli en hann hlaut áverka þegar hann velti snjósleða sínum. Maðurinn var fluttur á Landspítalann í Fossvogi.
Á sunnudag var þyrlan svo kölluð út vegna umferðarslyss í Hrunamannahreppi en útkallið var svo afturkallað þegar í ljós kom að meiðsli ökumannsins voru minni en talið var í fyrstu.
Önnur útköll þyrlunnar um helgina voru meðal annars vegna slyss við Súðavík og veikinda í Vestmannaeyjum.