Sundlaug Stokkseyrar var lokað í dag til þess að spara heita vatnið í sveitarfélaginu fyrir kuldakaflann sem er í kortunum næstu daga.
„Það er verið að spara fyrir kuldakaflann sem er framundan og við viljum tryggja að þrýstingur haldist á Eyrarbakka og Stokkseyri næstu daga. Vonandi þurfum við ekki að fara í frekari aðgerðir,“ sagði Sigurður Þór Haraldsson, veitustjóri Selfossveitna, í samtali við sunnlenska.is.
Stefnt er að því að opna sundlaugina aftur á mánudaginn. Íbúum er bent á að opið verður í Sundhöll Selfoss næstu daga.
Viðbragðsáætlun í gildi
Eins og sunnlenska.is greindi frá í gær hefur viðbragsáætlun Selfossveitna verið virkjuð vegna komandi kuldakasts. Hluti af henni er að hvetja íbúa til að huga að sínum enda hitaveitunnar og fara sparlega með vatn og gæta að því að gluggar séu ekki opnir og útidyr ekki látnar standa opnar lengur en þörf er á. Þá er fólk beðið um að fara sparlega með neysluvatn við uppvask og böð og einnig er bent á að heitir pottar við heimili séu talsvert þurftafrekir á vatnið.