Sparidagar í 25 ár

Sparidagar eldri borgara hafa verið haldnir hátíðlegir á Hótel Örk í 25 ár á þessu ári og verður dagskrá Sparidaga að þessu sinni vegleg í tilefni tímamótanna.

Á Sparidögum koma eldri borgarar saman og eiga góðar stundir. Reynt er að skipuleggja dagana þannig að eldri borgarar af sama landshluta komi saman í einu og er í flestum tilfellum í boði rútuferðir á milli.

„Sparidagar hafa verið í boði stanslaust frá árinu 1990 og er líklega leitun að skemmtidagskrá á Íslandi sem hefur verið í boði stanslaust jafnlengi. Ýmsir skemmtanastjórar hafa komið að sparidögum í gegnum tíðina og má nefna Hermann Ragnar Stefánsson, Sigurð Guðmundsson, Guðrúnu Nielsen, Árna Norðfjörð, Unni Arngrímsdóttir og undanfarin ár Gunnar Þorláksson,“ segir Geir Gígja, sölu- og markaðsstjóri hótelsins. Í ár sér Níels Árni Lund um dagskrárstjórn og verður með Hauk Ingibergsson og marga aðra góða gest honum til halds og trausts.

Að sögn Geirs verða Sparidagar með skemmtilegra móti í ár og lögð verður áhersla á að dagskráin verði með afþreyingu, skemmtun og fræðslu í bland með það í huga að hafa Sparidagana ógleymanlega.

„Á meðal dagskrárliða má nefna hina landskunnu eftirhermu Jóhannes Kristjánsson, heimsókn til Landgræðslu ríkisins að Gunnarsholti, leikritið AFINN þar sem leikarinn Sigurður Sigurjónsson fer á kostum þegar hann segir frá lífi afa í dag og einnig verður farið í heimsókn í glæsilega hestaleikhúsið Fákasel sem er í nágrenni Hveragerðis. Svo verður skemmtileg kvölddagskrá á sínum stað,“ segir Geir Gígja og bætir við að Sparidagar eldri borgara séu orðnir fastir liðir eldri borgara þar sem þeir fá tækifæri á að koma saman og njóta hagkvæmrar gistingar og fræðandi en skemmtilegrar dagskrár í fimm daga.

Fyrri greinAnthony Karl setti HSK met
Næsta greinGuðmundur Þór og Björn HSK meistarar