Eigna- og veitunefnd Árborgar samþykkti á síðasta fundi sínum að setja upp færanlegan sparkvöll í sumar á opnu svæði við Gráhellu á Selfossi.
Um er að ræða svokallaðan pannavöll, sem er hringlaga völlur, sjö metrar í þvermál og framleiddur í Finnlandi.
„Við setjum upp þennan völl til þess að mæta óskum íbúa í hverfinu sem hafa kallað eftir því að fá einhver leiktæki í hverfið. Þetta er millileikur þar til að leiksvæðið við nýja leikskólann verður klárt næsta sumar, ásamt fjölskyldugarði við hlið leikskólans,“ segir Tómas Ellert Tómasson, formaður eigna- og veitunefndar.