Í gær opnaði Kjörbúðin nýja verslun við Suðurlandsveg á Hellu en unnið hefur verið hörðum höndum að því að standsetja rýmið síðustu daga.
„Það eru spennandi tímar framundan og það leggst vel í okkur að opna nýja Kjörbúð á Hellu og að geta þjónustað íbúa Hellu og nágrennis. Við munum kappkosta við að bjóða upp á gott úrval, lágt verð og ferskar vörur. Kjörbúðin gerir viðskiptavinum kleift að versla daglega allar helstu nauðsynjavörur á samkeppnishæfu verði. Verslun okkar er rúmgóð með miklum þægindum, björt og vítt til veggja. Við leggjum mikla áherslu á ferskvöruna og bjóðum uppá mjög sterk tilboð allar helgar ofaná verðstefnu okkar „lágt verð alla daga,“ segir Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri Samkaupa.
Í tilefni opnunarinnar gerði Kjörbúðin eins árs styrktarsamning við Golfklúbbinn Hellu auk þess sem Rangárþingi ytra var fært gjafabréf fyrir hjartastuðtæki til þess að koma fyrir á Suðurlandsvegi 1-3. Óskar Pálsson, formaður GHR og Björk Grétarsdóttir, oddviti, voru viðstödd opnunina þar sem þetta var skjalfest.

Rangárþing ytra vaxtandi markaður
Verslanir Kjörbúðarinnar eru staðsettar á fimmtán stöðum á landinu og bætist nú glæsileg verslun við á Hellu. Kjörbúðin er í eigu Samkaup hf. og verið er að innleiða vildarkerfi sem gildir í öllum verslunum og ber heitið Samkaup í símann og veitir viðskiptavinum fastan afslátt af innkaupum og aðgang að sértilboðum.
„Rangárþing ytra og svæðið í kring er vaxandi markaður sem gefur okkur vonandi tækifæri til að auka enn frekar við þjónustuna eftir því sem líður á,“ bætir Gunnar Egill við. Opnunartími Kjörbúðarinnar verður frá 9-20 virka daga, 9-18 á laugardögum og 9-17 á sunnudögum.
Samkaup reka um 60 verslanir víðsvegar um landið. Þær spanna allt frá lágvöruverðsverslunum til þægindaverslana. Helstu verslanamerki Samkaupa eru Nettó, Kjörbúðin, Krambúðin og Iceland.

