Það var margt um manninn þegar fyrirtækið Jörth á Eyrarbakka fagnaði því síðastliðinn fimmtudag að fjórar nýjar vörur hafa bæst við bætiefnalínuna þeirra.
Hjónin Birna Ásbjörnsdóttir og Guðmundur Ármann Pétursson, stofnendur og eigendur Jörth, buðu vinum og velunnurum í útgáfuhóf á heimili sínu á Eyrarbakka. Boðið var upp á á fjölbreyttar kræsingar, þar á meðal fiskisúpu, heimagert kombucha og sætkartöflupizzur – allt gert frá grunni af Birnu sjálfri.
„Það eru spennandi spennandi tímar framundan hjá Jörth. Fólk hefur sýnt vörunum mikinn áhuga. Vörurnar eru mjög einstakar og fáar eða engar svipaðar vörur á markaði á heimsmælikvarða,“ segir Birna í samtali við sunnlenska.is.
Stemning í hófinu var góð og afslöppuð og var þetta næring fyrir bæði líkama og sál, umvafin náttúru og sjávarilm – alveg í anda Jörth.
Fyrsta varan frá Jörth kom út fyrir rúmu ári síðan og nefnist Abdom 1.0. Hún er unnin úr íslenskri broddmjólk og inniheldur góðgerla sem hjálpa fólki að efla og stuðla að heilbrigðri þarmaflóru. Nú hafa fjórar nýjar vörur bæst við bætiefnalínuna þeirra en Jörth vinnur sínar afurðir úr kúamjólk frá Gunnbjarnarholti í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.