Skólasetning grunnskólanna í Árborg verður mánudaginn 24. ágúst og kennsla hefst næsta dag á eftir. Um 1.250 nemendur eru í grunnskólum sveitarfélagsins en af þessum hópi eru 123 börn að byrja í 1. bekk.
Um 230 starfsmenn eru starfandi í grunnskólunum, þ.m.t. í skólavistun og sérdeild. Stöðugildin eru þó eitthvað færri því sumir eru í hlutastarfi.
Að sögn Þorsteins Hjartarsonar, fræðslustjóra Árborgar er mjög spennandi vetur framundan í grunnskólum sveitarfélagsins.
„Já, við munum bjóða upp á símenntun fyrir kennara, m.a. um rafrænt nám, snjalltæki og námsefnisgerð, samstarf foreldra og skóla og um einfaldar og jákvæðar kennsluaðferðir sem bæta hegðun og líðan nemenda. Þá verða tvö PALS námskeið í boði en það er árangursrík kennsluaðferð til að þjálfa lesfimi og lesskilningsaðferðir í blönduðum námshópum,“ segir Þorsteinn og heldur áfram.
„Við höldum svo að sjálfsögðu áfram með lesskimanir og fleira í leik- og grunnskólum sem stuðlar að því að öll börn geti helst lesið sér til gagns við útskrift úr grunnskóla og í því verkefni munum við styrkja fagleg tengsl okkar við menntamálayfirvöld í landinu.“