Spenntari en krakki í sælgætisbúð

Styrktarkvöldið fyrir Ágústu Örnu, sem lamaðist í slysi á Selfossi fyrir stuttu, verður í kvöld í Hótel Selfossi og hefst dagskráin kl. 21.

Upphitun hefst í hótelinu kl. 20:30 þegar Hreimur & Made in Sveitin ásamt gestum spila órafmagnað og munu þeir selja óskalög til gesta.

Þeir sem koma fram á stóra sviðinu í hótelinu eru svo Herbert Guðmundsson, 
Ágústa Eva og Karitas Harpa við undirleik Á móti sól, 
Föstudagslögin
 með Stebba Jak og Andra, Stuðlabandið, Ari Eldjárn, 
Kiriyama family
 og Páll Óskar.

Vert er að taka fram að allur peningur sem fólk eyðir þetta kvöld, hvort sem það er í miða, veitingar, lög, diska eða annað, fer óskiptur til Ágústu Örnu.

Uppboðið sem hefur verið í gangi á Facebook-síðunni Fyrir Ágústu lýkur í kvöld og geta gestir styrktarkvöldsins boðið í hlutina.

Sjálf segist Ágústa vera gríðarlega spennt fyrir kvöldinu, „er spenntari en krakki í sælgætisbúð,“ sagði hún á Facebook-síðu sinni fyrr í dag.

Forsala miða verður í Kaffi Selfoss frá kl. 13 í dag og getur fólk kíkt við í kaffi og kleinur, skoðað hlutina sem eru á uppboðinu og keypt miða á kvöldið.

Fyrri greinMyndasýning í tilefni af Guggusundi í 25 ár
Næsta greinNýtt öryggisskilti í Reynisfjöru