Spesían ehf á Hvolsvelli bauð lægst í jarðvinnu við nýjan leikskóla sem rísa mun við Vallarbraut á Hvolsvelli.
Tilboð Spesíunnar hljóðaði upp á 42,7 milljónir króna en Gröfuþjónustan Hvolsvelli ehf bauð 43,8 milljónir króna. Vörubifreiðastjórafélagið Mjölnir á Selfossi átti hæsta tilboðið, 47,6 milljónir króna.
Verkið fellst í að grafa grunn fyrir leikskólanum, fylla í grunninn, ásamt greftri og fyllingum vegna vegs og bílastæða sem liggja innan lóðarmarka. Verkinu á að vera lokið þann 15. október næstkomandi.
Verkís hefur umsjón með útboðinu og mun nú yfirfara innkomin gögn samkvæmt útboðsskilmálum og tilkynna um endanlega niðurstöðu útboðsins í framhaldinu.