Bæjarráð Hveragerðis hefur samþykkt að öll lúpína verði slegin við Suðurlandsveg og í Þverbrekkum. Bæjarráð vill jafnframt beina því til íbúa að kerfill og njóli verði sleginn í öllum heimagörðum og hvar sem því verður við komið.
Átak gegn útbreiðslu lúpínu í landi Hveragerðisbæjar var samþykkt á síðasta fundi bæjarráðs.
Í minnisblaði frá bæjarstjóra sem lagt var fram á fundinum kom eftirfarandi m.a. fram að alger sprenging hefur orðið í útbreiðslu lúpínu í íslenskri náttúru í sumar að mati sérfræðinga eins og fram hefur komið í fjölmiðlum að undanförnu. Lúpína er dæmi um ágenga erlenda plöntu sem numið hefur hér land og dreift sér um stór svæði með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á lággróður.
Í Hveragerði hefur lúpína dreift sér undir Hamrinum, í Varmárgili og ofan Klettahlíðar en önnur svæði hafa að mestu verið laus undan ágangi hennar.
Nú er svo komið að sjá má smærri breiður lúpínu á víð og dreif um bæinn og sérstaklega er það áberandi í kringum þjóðveginn og í móunum í kringum byggðina. Er brýnt að þegar í stað verði brugðist við þessari útbreiðslu með slætti til að koma í veg fyrir frekari dreifingu plöntunnar.