Sporttæki/Gröfutækni bauð lægst í frágang á nýja frjálsíþróttavellinum á Selfossi. Öll tilboðin voru yfir kostnaðaráætlun.
Tíu tilboð bárust frá fjórum verktökum og ekkert þeirra var undir kostnaðaráætlun hönnuða sem hljóðaði upp á tæpar 98 milljónir króna. Lægsta tilboð Sporttækja/Gröfutækni hljóðaði upp á rúmar 99,5 milljónir króna.
Verkið felst í að leggja snjóbræðslulagnir, frárennslislagnir og niðurföll, ganga frá, steypa niður rennusteina og kantsteina, setja mulning undir malbik og malbika. Ganga frá tækjum og festingum fyrir íþróttatæki og leggja yfirborðsefni á hlaupabrautir.
Sporttæki/Gröfutækni átti einnig frávikstilboð sem hljóðar upp á rúmar 108 milljónir. Aðrir sem buðu í verkið voru Ístak með tæpar 123,6 milljónir, Ræktunarsamband Flóa og Skeiða bauð tæpar 126,9 milljónir og Metatron sendi inn sex tilboð á bilinu 121,6 til 160,9 milljónir.