Á síðustu tveimur árum hefur orðið sprenging í byggingu íbúða á Hellu. Snemma árs 2017 varð vart við skort á framboði, sérstaklega á minni íbúðum, og í kjölfarið fóru framkvæmdir á fullt með samstilltu átaki verktaka og sveitarfélagsins.
Byrjað var á byggingum 80-90 m² íbúða í raðhúsum á Öldusvæðinu svokallaða, rétt fyrir neðan flugvöllinn á Hellu. Í dag er þegar búið að byggja átta íbúðir við Sandöldu, ellefu íbúðir við Skyggnisöldu og tólf íbúðir við Snjóöldu og eru þá ekki taldar þær íbúðir sem ekki tengjast þessu átaki.
Sveitarfélagið hefur keypt sex íbúðir af þessum rúmlega 30 íbúðum undir félagslega þjónustu sína og eru aðrar íbúðir seldar eða komnar í almenna útleigu. Jafnframt var lokið byggingu á fjögurra íbúða raðhúsi við Guðrúnartún við Dvalarheimilið Lund fyrir eldri íbúa samfélagsins.
Nú er búið að úthluta sjö lóðum á Öldusvæðinu til viðbótar undir a.m.k. 27 íbúðir og eru verktakar í startholunum að hefja framkvæmdir. Ef fram heldur sem horfir verður þess ekki langt að bíða að farið verði að úthluta lóðum í götunum Kjarröldu, Lyngöldu, Melöldu og Móöldu, en þar er gert ráð fyrir 65 – 80 íbúðum í mismundandi útgáfum einbýlis-, par- eða raðhúsa.