Sprenging var í tengivirki í Nesjavallavirkjun snemma í morgun. Brunavarnir Árnessýslu á Selfossi fengu boð um eld í tengivirkinu klukkan 5:50 í morgun auk þess sem mannskapur frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins var kallaður á vettvang.
Engin slys urðu á fólki í sprengingunni og slökkvistarf gekk vel fyrir sig.
Morgunblaðið greinir frá því að virkjunin sé úti vegna þessa en vonast sé til að þrjár af fjórum vélum virkjunarinnar verði komnar aftur inn um hádegið. Ekki sé ljóst hvað skemmdirnar séu miklar.