Mikill viðbúnaður hefur verið á nýja gámasvæðinu við Óseyrarbraut í Þorlákshöfn í morgun en lögreglan fékk tilkynningu á níunda tímanum um torkennilega hluti í gámi á svæðinu.
Sérsveit ríkislögreglustjóra og sprengjusveit Landhelgisgæslunnar voru kölluð á svæðið ásamt lögreglu. Hafnarfréttir greindu fyrst frá málinu og sögðu að verið væri að aftengja mögulega sprengju sem fannst á svæðinu.
Þorsteinn M. Kristinsson, varðstjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi, sagði í hádegisfréttum RÚV að ekki sé búið að ganga úr skugga um hvort um sprengju sé að ræða en búið sé að loka stóru svæði í nágrenninu til þess að tryggja að enginn komi nærri. Starfsmenn gámasvæðisins hafi fundið og tilkynnt um torkennilega hluti í gám á svæðinu.