Það verður mikið um að vera á Laugarvatni á laugardaginn þegar víðavangshlaupið Gullspretturinn fer fram. Deginum lýkur svo með dansleik á bökkum vatnsins og allt er þetta gert í þágu góðs málefnis.
Gullspretturinn er hlaup í kringum Laugarvatn og hefst kl. 11:00 við gróðurhúsið niður við vatn. Hlaupið er í kringum Laugarvatn yfir ár, mýrar og móa með frjálsri aðferð. Vegalengdin er ca. 8,5 km og drykkjarstöð verður við Útey eftir að Hólárós hefur verið vaðinn. Skráningu í hlaupið lýkur klukkan 20 á fimmtudagskvöld og er þátttakendafjöldinn takmarkaður við 350 manns.
Allur ágóði af hlaupinu í ár rennur til kaupa á björgunarsæþotu en enga slíka er að finna í uppsveitum Árnessýslu. Verðlaun eru fyrir fyrstu sætin í karla- og kvennaflokki og vegleg útdráttarverðlaun. Auk þess verður þátttakendum boðið upp á hverabrauð Fontana, Egils gull, Kókómjólk, Hleðslu og reyktan Úteyjarsilung að loknu hlaupi.
Dansað fram á nótt
Deginum lýkur svo á Gullsprettsballinu í Viking tjaldinu við vatnið. Þar mun Matti Matt stíga á stokk með hljómsveit en ballið er fjáröflun í söfnun Björgunarsveitarinnar Ingunnar til kaupa á nýjum tækjabúnaði, hægt er að kaupa miða af björgunarsveitarmönnum beint, í síma 8669588 og á midix.is. Tjaldið opnar kl. 22 og dansleiknum lýkur kl. 02. Það er 18 ára aldurstakmark og bar á staðnum.