Sr. Sveinn Valgeirsson, sóknarprestur í Eyrarbakkaprestakalli, tók við starfi prests við Dómkirkjuna í Reykjavík þann 1. september síðastliðinn og mun starfa þar í eitt ár.
Á meðan á leyfi sr. Sveins stendur mun sr. Anna Sigríður Pálsdóttir þjóna prestakallinu sem samanstendur af Eyrarbakka-, Stokkseyrar- og Gaulverjabæjarsóknum. Hún var boðin velkomin til starfa á aðalsafnaðarfundi Stokkseyrarsóknar í kvöld.
Sr. Anna Sigríður hefur verið dómkirkjuprestur undanfarin ár en hún er nú flutt á Eyrarbakka. Nýi presturinn á ættir sínar að rekja til Stokkseyrar en hún er dóttir dr. Páls Ísólfssonar, tónskálds og dómorganista, sem fæddur var á Stokkseyri.
Fyrsta messa sr. Önnu Sigríðar í prestakallinu verður í Stokkseyrarkirkju kl. 11 á sunnudag.