Sr. Arnaldur Arnold Bárðarson hefur verið ráðinn prestur í Austfjarðaprestakalli í Austurlandsprófastsdæmi.
Biskup Íslands auglýsti starfið nýlega og var sr. Arnaldur eini umsækjandinn.
Arnaldur er fæddur á Akureyri 2. júní árið 1966. Hann lauk námi frá guðfræðideild Háskóla Íslands árið 1995 og lauk síðan kennaranámi og meistaraprófi í menntunarfræðum frá Háskólanum á Akureyri.
Hann vígðist til prestsþjónustu í Raufarhafnarprestakalli árið 1996 og varð síðar prestur á Hálsi í Fnjóskadal og í Glerárkirkju á Akureyri. Árið 2010 gekk hann í þjónustu norsku kirkjunnar og var þar við störf til ársins 2017. Við komuna til Íslands varð hann sóknarprestur í Eyrarbakkaprestakalli og einnig í Þorlákshöfn en er nú prestur í Árborgarprestakalli.
Eiginkona sr. Arnaldar er sr. Ingibjörg Jóhannsdóttir áður prestur í norsku kirkjunni en nú sérkennslustjóri á leikskólanum Ökrum í Garðabæ.Þau eiga fimm syni og 6 barnabörn.
Arnaldur og Ingibjörg munu flytja á prestssetrið Heydali í Breiðdal nú í marsmánuði.