SS er að hefja byggingu á nýju vöruhúsi á athafnasvæði félagsins í Þorlákshöfn. Vöruhúsið sem verður 1.500 fermetrar að stærð verður notað undir innflutning á áburði.
Athafnasvæði SS er um 9.000 fermetrar við höfnina í Þorlákshöfn sem tryggir búvörudeild félagsins gott rými til frekari vaxtar á komandi árum.
SS er í samstarfi við norska stórfyrirtækið YARA um innflutning og sölu á áburði. SS skipar upp áburð á 12 höfnum um allt land. Umsvifin eru hins vegar mest í Þorlákshöfn og því er brýnt fyrir SS að bæta enn frekar aðstöðuna í Þorlákshöfn með byggingu á nýju vöruhúsi.
Þann 3. september sl. samdi SS við Landstólpa um kaup og uppsetningu á nýja vöruhúsinu sem er 1500 fermetra stálgrindahús. Auk Landstólpa koma að verkinu fjöldi verktaka á Suðurlandi. Verkfræðistofan Ferill sem SS hefur átt langt og farsælt samstarf við sér um hönnun, umsjón og eftirlit með byggingarframkvæmdum. Áætlað er að framkvæmdum ljúki fyrir áramót.
Nýja vöruhúsið verður eingöngu fjármagnað úr rekstri SS enda fjárhags- og lausafjárstaða félagsins góð.