Sláturhús Sláturfélags Suðurlands á Selfossi og Kjötvinnslan á Hvolsvelli hafa nú fengið útgefið starfsleyfi á grundvelli matvælareglugerðar ESB.
Þar með er öll starfsemi framleiðsludeilda SS samkvæmt gildandi matvælareglugerð ESB og hefur í för með sér að heimilt er að dreifa og selja allar framleiðsluvörur félagsins á hinu Evrópska efnahagssvæði, sem skapar fjölmörg ný og spennandi tækifæri, að því er fram kemur í tilkynningu frá félaginu.
Sláturhúsið á Selfossi fékk leyfið útgefið hinn 1. febrúar sl. og Kjötvinnslan á Hvolsvelli hinn 13. mars sl. Selfoss var áður með ESB leyfi á afurðir úr hrossum og sauðfé og nú bættust afurðir úr nautgripum og svínum við. Hvolsvöllur fékk leyfi fyrir alla þætti starfseminnar.
Þrátt fyrir að bæði sláturhúsið og kjötvinnslan séu og hafi verið í fremstu röð á sínu sviði hérlendis höfðu hinar nýju reglur í för með sér að gera þurfti talsverðar breytingar á innra gæðakerfi, flæði vöru, verklagi, búnaði og húsnæði.
Stórum áfanga er náð, en ljóst að á næstu misserum þarf að halda vel á spöðunum til að starfsemin verði áfram í fremstu röð. Gæðakerfi og verklag er þannig í stöðugri þróun og áfram verður kappkostað að gera húsnæði og búnað sem best úr garði. Markmið SS er að reka slátrun og kjötiðnað sem fyllilega stenst samanburð við það besta sem gerist í sambærilegri starfsemi innanlands og utan.
Vegna leyfisins verða breytingar á vöruumbúðum SS sem m.a. felast í því að á þær allar verður stimplað svokallað samþykkisnúmer, sem er staðfesting þess að framleiðslan uppfylli ítrustu skilyrði og reglur ESB. Samþykkisnúmer Selfoss er A081 og Hvolsvallar A052.