SSK afhenti HSU veglegar gjafir

(F.v.) Jóhanna Lilja Þrúðmarsdóttir ritari SSK, Sólveig Þórðardóttir formaður SSK, Arndís Fannberg varastjórn SSK og Margrét Björk Ólafsdóttir hjúkrunarstjóri á Selfossi. Ljósmynd/Aðsend

Í síðustu viku fór fram formleg afhending á tveimur gjöfum sem Samband sunnlenskra kvenna gaf til Heilbrigðisstofnunar Suðurlands í Árnes- og Rangárvallasýslum á árinu 2024.

Annars vegar var þetta gjöf til heilsugæslunnar á Selfossi, lífsstílsmótttöku, en þangað var gefið Tanita Body Composition Analyzer, tæki sem mælir líkamssamsetningu. Tækið kostar rúmlega 1,2 milljónir króna og nýtist til meðferðar þeirra sem eru yfir kjörþyngd, t.d. barna og ungmenna, fólks með sykursýki og einnig nýtist tækið fyrir fullorðið fólk á heilsugæslunni sem nýtir sér heilsueflandi móttöku vegna offitu og ýmissa tengdra sjúkdóma.

Samskonar tæki var svo gefið til heilsugæslnanna í Rangárþingi á haustmánuðum og kostaði tæpar 1,3 milljónir króna. Alls gaf því SSK Heilbrigðisstofnun Suðurlands gjafir fyrir rétt tæplega 2,5 milljónir króna á árinu 2024. Þar sem þessi tæki eru komin á heilsugæslurnar í báðum sýslum, þá er þjónustan komin nær íbúunum og þeir þurfa ekki að ferðast um langan veg.

(F.v.) Jóhanna Lilja Þrúðmarsdóttir ritari SSK, Arndís Fannberg hjúkrunarfræðingur hjá heilsugæslunum í Rangárþingi, sem tók við gjafabréfinu og Sólveig Þórðardóttir formaður SSK. Ljósmynd/Aðsend

Samband sunnlenskra kvenna fjármagnar þessa styrki eingöngu með sölu gjafakorta, sem eru til sölu á heilsugæslustöðvunum í Árnes- og Rangárvallasýslum og einnig hjálpast allar félagskonurnar í kvenfélögunum 25 sem eru í SSK, að við að selja kortin, en seld eru fjögur kort saman á 2.500 krónur. Einnig er hægt að hafa samband við stjórnarkonur í SSK til þess að kaupa kort, eða hjá Sólveigu formanni í síma 869-6534 eða á email ssk@kvenfelag.is.

Sjúkrahússjóður Sambands sunnlenskra kvenna var stofnaður árið 1952, þegar byrjað var að safna fyrir sjúkrahúsi með framlögum frá kvenfélögunum. Frá árinu 1968 hefur fjár verið aflað með fjáröflunum, það ár var byrjað að selja jólakort sem þróaðist svo yfir í gjafakort á síðustu árum.

„Gjafirnar sem nú eru gefnar eru framlag allra 870 kvennanna sem eru félagskonur kvenfélaganna í Árnes- og Rangárvallasýslum til heilbrigðismála í umdæminu þeirra. Vonast þær til að þessar gjafir nýtist vel og þakka þær af alhug öllum sem hafa veitt þessu verkefni stuðning,“ segir í tilkynningu frá SSK.

Fyrri greinSiglt með tæki og búnað út í Efri-Laugardælaeyju
Næsta grein„Villtustu handrit geta orðið að veruleika“