Stjórn Sambands sunnlenskra kvenna lýsir yfir miklum áhyggjum af ótryggu aðgengi að læknisþjónustu í Rangárvallasýslu. Þetta kemur fram í áskorun til Ölmu Möller, heilbrigðisráðherra og Díönu Óskarsdóttur, forstjóra HSU, sem samþykkt var á stjórnarfundi SSK síðastliðinn þriðjudag.
Í Rangárvallasýslu búa um 4.200 manns og þar eru að auki mörg sumarhús sem gjarnan er dvalið í meira og minna og um svæðið fer mikill fjöldi ferðamanna allt árið um kring.
„Það veldur óöryggi að ekki sé tryggt að ætíð sé læknir til staðar í svo fjölmennu héraði og er í raun óboðlegt. Sú staða sem upp kom til dæmis um jólahátíðina að enginn læknir var á vakt er algjörlega óásættanleg,“ segir í ályktun SSK.
„Svona óöryggi skapar einnig aukið álag fyrir aðra heilbrigðisstarfsmenn sem starfa á heilsugæslunni og ekki hægt að bjóða þeim upp á það til lengri tíma. Því er brýnt að brugðist verði við sem allra fyrst og ráðnir inn læknar til að sinna þjónustunni,“ segir ennfremur í ályktuninni en þar skorar stjórn SSK á stjórnvöld og yfirmenn heilbrigðisþjónustu í héraðinu að tryggja nú þegar fyrirsjáanleika og örugga læknisþjónustu til framtíðar.
Samband sunnlenskra kvenna eru regnhlífarsamtök yfir öll kvenfélög í Árnessýslu og Rangárvallasýslu og í sameiningu hafa þau alla tíð stutt dyggilega við heilbrigðisstofnanir á sínu svæði með rausnarlegum gjöfum.