Bæjarráð Hveragerðis samþykkti á síðasta fundi að stærri strætó æki á leið 51, milli Selfoss og Reykjavíkur heldur en nú er. Ítrekað hefur þurft að vísa fólki frá í Hveragerði þar sem vagninn kemur fullur frá Selfossi eða Reykjavík.
Hvergerðingar vilja að í stað 19 manna vagns komi 35 manna vagn. Kostnaðaraukningin vegna stækkunarinnar er 600 þúsund fyrir Hveragerði en 1,8 milljónir fyrir Árborg. Þar hefur málið ekki verið tekið fyrir ennþá.
„Það hafa komið fyrir of mörg tilvik þar sem 19 manna vagninn hefur verið of lítill og fólk hefur hreinlega verið skilið eftir hér í Hveragerði. Þetta er mjög bagalegt og samkvæmt talningum þá er 19 manna vagn alveg á nippinu að vera of lítill. Í þetta rúma ár sem strætó hefur gengið hér á milli hefur verið stöðug aukning og nú má ekkert útaf bregða til að 19 manna vagn fyllist ekki,“ sagði Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hveragerði, í samtali við sunnlenska.is