Í dag var ný brú yfir Hvítá við Bræðratungu opnuð fyrir almennri umferð, en brúin styttir vegkaflann á milli Flúða og Reykholts um 26 km og verður hann nú rétt rúmir 20 kílómetrar.
Stytting vegkaflans skiptir miklu máli fyrir íbúa svæðisins og alla sem eiga þar leið um. Grænmetisbændur sitt hvorum megin við ána ákváðu að gefa grunnskólum hvors annars ferskt grænmeti í desembermánuði til að halda upp á samgöngubótina.
„Það er óhætt að segja að brúin sé með stærstu samgöngubótum á Suðurlandi í áratugi, en hún opnar ótal möguleika í atvinnu- og búsetu auk fjölda tækifæra í ferðaiðnaði. Uppsveitir Árnessýslu eru mikil matarkista og nýi vegurinn auðveldar flutning grænmetis á markað og þannig má segja að brúin nýtist allri þjóðinni líka,“ segir Gunnlaugur Karlsson, framkvæmdastjóri Sölufélags garðyrkjumanna. „Það hefur alltaf verið mikil vinátta milli Reykholts og Flúða og til marks um það sem og hve samgöngurnar eru orðnar góðar þá munu grænmetisbændur frá Flúðum gefa skólabörnum í Reykholti grænmeti í desembermánuði og Reykholtsbændur gefa skólabörnum í Flúðum grænmeti.“
Þrátt fyrir að brúin og vegurinn að henni hafi opnað í dag er framkvæmdum á svæðinu ekki að fullu lokið, en bíða verður eftir því að vegurinn sígi áður en hann er klæddur endanlegu slitlagi.
Bændur gefa skólum hvors annars grænmeti
„Opnun brúarinnar skiptir miklu máli fyrir fólkið hér á svæðinu, en þessi samgöngubót er táknræn fyrir aukin tengsl milli sveitarfélaganna. Nú sameinast tvö atvinnusvæði í eitt, en það munar miklu hvort þú þarft að keyra 40 kílómetra í vinnuna eða kannski 5-10! Þá geta bændur sitt hvorum megin við ána samnýtt ferðir vörubíla Sölufélagsins okkar auk þess sem við erum í ýmsu samstarfi, til að mynda í vöruþróun á tómötum,“ segir Georg Ottósson sem rekur Flúðasveppi en hann er einnig stjórnarformaður Sölufélags Garðyrkjumanna.
Nýr hringur fyrir ferðamenn
Suðurland hefur löngum verið vinsælt ferðaþjónustusvæði og með betri samgöngum skapast ýmis tækifæri. „Við erum mjög hamingjusöm með nýju brúna en með henni opnast fjöldi nýrra möguleika fyrir ferðaþjónustuna. Áður var alltaf talað um gamla góða gullna hringinn, en nú eru þetta orðnir margir hringir, margir útúrdúrar, og fjölbreytnin eykst í ferðaþjónustunni,“ segir Ásborg Arnþórsdóttir ferðamálafulltrúi uppsveita Árnessýslu og segir slíkt koma sér vel fyrir heimamenn jafnt sem ferðafólk.