Sunnlenska.is tók hús á flugeldasölunum á Selfossi í gærkvöldi og allstaðar voru menn sammála um að salan væri svipuð og í fyrra en langstærstur hluti hennar fer fram á gamlársdag.
„Þetta er yfirleitt rólegt framanaf, kvöldið í kvöld er yfirleitt gott en ég giska á að allt að 70 prósent sölunnar fari fram á gamlársdag,“ sagði Björn Kristinn Pálmarsson, hjá Hjálparsveitinni Tintron í Grímsnesi sem er með sölustað við Austurveginn á Selfossi. „Flugeldasalan skiptir okkur miklu máli, enda er þetta ein af okkar aðal fjáröflunum.“
Viðar Arason og Karl Ágúst Hoffritz með eina með ÖLLU á flugeldamarkaði BFÁ. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Á flugeldamarkaði Björgunarfélags Árborgar við Árveg var mikið um að vera og líkt og annarsstaðar fer mesta salan fram á gamlársdag. „Úrvalið er alltaf að aukast ár frá ári, til dæmis er meira úrval núna af minni skottertum í lægsta verðflokki. Annars eru vörurnar á sama verði og í fyrra og okkur sýnist að salan verði svipuð og á síðasta ári. Þetta lítur vel út,“ sagði Karl Ágúst Hoffritz í samtali við sunnlenska.is.
Hjalti Þorvarðarson og Sævar Þór Gíslason með veglega Selfosspakka. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Sævar Þór Gíslason stóð vaktina í flugeldasölu knattspyrnudeildar Umf. Selfoss þegar sunnlenska.is leit við þar. „Það er búin að vera góð traffík hérna hjá okkur. Fólk er mikið að koma og skoða og kanna verðið en við getum státað okkur af því að vera með ódýrustu flugeldana og gott úrval. Þetta er skemmtilegur tími og gamlársdagur er auðvitað langstærstur í sölunni hjá okkur,“ sagði Sævar Þór.