Nauðsynlegt er fyrir stjórnendur neyðar- og rýmingaráætlana að leita samvinnu við bændur við hönnun viðbragðsáætlana vegna Kötlugoss.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í rannsókn Deanne K. Bird á samfélagslegum hliðum eldfjallavár og viðbragðsáætlana á Suðurlandi. Á morgun, föstudaginn 3. september, mun Bird flytja fyrirlestur í Háskóla Íslands um rannsókn sína.
Fyrirlesturinn nefnist Social dimension of volcanic hazards, risk and emergency response procedures in southern Iceland og verður í stofu 132 í Öskju kl. 14:00.
Rannsóknin var doktorsverkefni Bird og sameiginlegt verkefni Háskóla Íslands og Macquarie háskólans í Ástralíu.
Katla er ein virkasta og hættulegasta eldstöð Íslands. Íbúum í nágrenni Kötlu og ferðamönnum stafar hætta af gosi í eldstöðinni vegna hamfarahlaupa, gjóskufalls og eldinga. Viðamiklar jarð- og jarðeðlisfræðilegar rannsóknir hafa verið gerðar á Kötlu en til þessa hefur aðeins ein rannsókn verið gerð meðal íbúa um áhrif Kötlu á þá.
Bird segir að til þess að hægt sé að móta skilvirkar viðbragðs- og rýmingaráætlanir vegna náttúruvár sé nauðsynlegt að skilja skynjun fólks og þekkingu á náttúruvá og hvernig það muni bregðast við aðsteðjandi hættu.
Rannsókn Bird tekur heildstætt og ítarlega á hinum félagslega þætti og er ætlað að vera viðbót við þá þekkingu sem er til staðar á Kötlugosum og áhrifum þeirra. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að þekking og viðhorf íbúa á náttúruvá tengdri Kötlu og hvernig þeir myndu bregðast við hættunni er breytileg eftir hópum og þarf því að taka tilliti til þess við hönnun viðbragðsáætlana.
Bird segir að til að viðbragðsáætlun verði skilvirkari sé nauðsynlegt fyrir stjórnendur neyðar- og rýmingaráætlana að leita samvinnu við bændur, taka tillit til staðbundinnar þekkingar þeirra og hversu tengdir þeir eru við búskapinn og staðinn sem þeir búa á.
Brýn þörf er á úrbótum svo hægt verði að draga úr áföllum og hættu vegna náttúruhamfara á áhrifasvæði Kötlu því margt bendi til þess að hún gjósi í náinni framtíð og að gos geti hafist með skömmum fyrirvara.