,,Þessi staður býður uppá ótalmarga möguleika og við viljum bara vekja athygli á þeim möguleikum sem hönnunarsamkeppni veitir.”
Þetta segir Logi Már Einarsson, formaður Arkitektafélags Íslands, en félagið hefur sent bæjarstjóra Hveragerðis bréf þar sem hvatt er til opinnar hönnunarsamkeppni um endurbyggingu Eden í Hveragerði.
Að sögn Loga Más felst í tilboði félagsins tilraun til að leggja hönd á plóg við endurbyggingu Eden en það er trú arkitekta að hönnunarsamkeppni sé rétta formið til að laða fram ólíkar hugmyndir um uppbyggingu staðarins með nýjum möguleikum.
,,Við viljum virkja samkeppnina til að laða fram sem skemmtilegastar og frumlegastar hugmyndir,” sagði Logi Már. Hann sagði að þeir hefðu fengið jákvæð viðbrögð við áskoruninni og hyggðust í framhaldinu skrifa bæjarstjórn bréf um nákvæmari útfærslu málsins.
Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hveragerði, sagði í samtali við Sunnlenska að bæjaryfirvöld fögnuðu áhuga arkitektanna en í augnablikinu yrði ekki ráðist í neina samkeppni um verkið. ,,Það er fyrst að sjá hvað lóðarhafi vill gera, við gerum ekkert ein og sér.”