„Staðurinn býður uppá ótalmargt“

,,Þessi staður býður uppá ótalmarga mögu­leika og við viljum bara vekja athygli á þeim mögu­leikum sem hönnunarsam­keppni veitir.”

Þetta segir Logi Már Einarsson, for­maður Arkitektafélags Íslands, en félag­ið hefur sent bæjarstjóra Hveragerðis bréf þar sem hvatt er til opinnar hönnunar­sam­keppni um endurbyggingu Eden í Hveragerði.

Að sögn Loga Más felst í tilboði félagsins tilraun til að leggja hönd á plóg við endurbyggingu Eden en það er trú arkitekta að hönnunarsamkeppni sé rétta formið til að laða fram ólíkar hugmyndir um uppbyggingu staðarins með nýjum möguleikum.

,,Við viljum virkja sam­keppnina til að laða fram sem skemmti­legastar og frumlegastar hugmyndir,” sagði Logi Már. Hann sagði að þeir hefðu fengið jákvæð viðbrögð við áskoruninni og hyggðust í framhaldinu skrifa bæjarstjórn bréf um nákvæmari útfærslu málsins.

Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hveragerði, sagði í samtali við Sunnlenska að bæjaryfirvöld fögnuðu áhuga arkitektanna en í augnablikinu yrði ekki ráðist í neina samkeppni um verkið. ,,Það er fyrst að sjá hvað lóðarhafi vill gera, við gerum ekkert ein og sér.”

Fyrri greinVinna hefst við hættumat fyrir eldgos
Næsta greinFíkniefnaakstur á Selfossi