Staða bænda veldur sveitarstjórn þungum áhyggjum

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

„Sú staða sem bændur standa frammi fyrir og þær rekstraraðstæður sem við þeim blasa, veldur sveitarstjórn Rangárþings ytra afar þungum áhyggjum.“ Þetta kemur fram í ályktun sem samþykkt var á fundi sveitarstjórnar Rangárþings ytra í síðustu viku.

„Rekstrargrundvöllur margra búa er með öllu brostinn, vegna mikilla kostnaðarhækkana á aðföngum, hás vaxtastigs og lausafjárskorts. Landbúnaður, matvælaframleiðsla og afleidd störf eru burðarás í atvinnulífi Rangárþings,“ segir ennfremur í ályktuninni þar sem því er bætt við að meðalaldur bænda sé frekar hár, aðstæður til nýliðunar í landbúnaði eru erfiðar og því virðist blasa við fjöldaflótti úr greininni.

Sveitarstjórn Rangárþings ytra skorar á ríkisvaldið að grípa tafarlaust til aðgerða gagnvart þeim erfiðu aðstæðum sem bændur standa frammi fyrir og framfylgja með því þeirri stefnu sem þegar hefur verið mörkuð um sjálfbærni og fæðuöryggi þjóðarinnar.

Fyrri greinAtvinnuuppbygging og þróun íbúðamarkaðar á Suðurlandi
Næsta greinMennta- og barnamálaráðherra heimsótti Árborg