Skyrland, sýningin um sögu skyrs í nýja miðbænum á Selfossi, hefur á undanförnum vikum hlotið alþjóðleg hönnunarverðlaun fyrir upplifunarhönnun og gagnvirka miðlun.
Sýningin hlaut gullverðlaun í flokknum Gagnvirk Miðlun hjá Indigo hönnunarverðlaununum í Istanbúl og bronsverðlaun í sambærilegum flokki á á Evrópsku hönnunarverðlaununum sem afhent voru í síðustu viku í Tallin í Eistlandi. Þetta er þriðja viðurkenningin sem Skyrland hefur hlotið á stuttum tíma, en í apríl hlaut sýningin FÍT verðlaunin fyrir gagnvirka miðlun.
„Þessi verðlaun eru ánægjuleg viðurkenning, og um leið staðfesting á þeim sköpunarkrafti og frumleika sem einkennir sýninguna,“ segir Vignir Guðjónsson, framkvæmdastjóri Skyrlands.
Skyrland er upplifunarsýning í Mjólkurbúinu í miðbæ Selfoss og fjallar um skyr og matarmenningu Íslands í fjölbreyttum og frumlegum innstillingum. Sýningin reynir á öll skilningarvit því gestir fá að horfa, snerta, þefa, hlusta, sjá og smakka.
Hönnun Skyrlands var í höndum Snorra Freys Hilmarssonar, Gagarín og fleiri sérfræðinga, en Verkstæðið sá um smíði og uppsetningu leikmynda og sýningaratriða.