„Stækkunin breytir öllu“

World Class á Selfossi stækkar um 800 fm2 með nýju viðbyggingunni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Viðbygging World Class við núverandi húsakost stöðvarinnar í Sundhöll Selfoss er langt komin en framkvæmdir hófust árið 2022.

„Framkvæmdirnar ganga vel. World Class á Selfossi stækkar um 800 fm2, 400 fm2 hvora hæð. Efri hæðin er komin í notkun að hluta til en við stefnum á að vera komin með fulla starfsemi eftir tvær vikur. Fljótlega eftir það klárast frágangur að utan,“ segir Björn Leifsson, framkvæmdastjóri World Class, í samtali við sunnlenska.is.

„Stækkunin breytir öllu fyrir World Class á Selfossi. Tækjasalurinn meira en tvöfaldast og við bætum við sal með WorldFit sem er nýtt hjá okkur á Selfossi.“

Framkvæmdir á neðri hæðinni eru langt komnar. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Viðræður um bæta SPA aðstöðuna
Björn segir að Sunnlendingar hafi verið duglegir að mæta í ræktina síðan stöðin opnaði á Selfossi janúar 2016.

„Það er stöðug aukning hjá okkur og tækjasalurinn er löngu sprunginn. Ásamt því að stækka hann um helming þá fjölgum við tækjunum þar mjög mikið. Hóptímarnir eru alltaf vinsælir eins og ketilbjöllur, spinning og infrared heitu tímarnir. Við trúum að WorldFit klúbburinn eigi eftir að slá í gegn á Selfossi eins og í Reykjavík og Akureyri.“

„Við eru jafnframt í viðræðum við sundlaugina um að bæta gufu og SPA aðstöðuna verulega með nýjum gufum og þess háttar,“ segir Björn að lokum.

Fyrri greinÚrslitin réðust í síðustu skákinni
Næsta greinFSu úr leik í Gettu betur