Lögreglan á Suðurlandi í samráði við svæðisstjórn björgunarsveita á svæði 16 hafa tekið ákvörðun um að fresta stærri leitaraðgerðum að Rimu Feliksasdóttur um sinn.
Heimamenn í Vík hafa tekið að sér að nýta þá veðurglugga sem gefast til að fara um fjörur á leitarsvæðinu en fyrirhugað er að kalla til stórrar leitar um eða undir næstu helgi þegar veðurspá er hagstæð.
Í dag var leitað á svæðinu frá Þjórsá austur að Kúðafljóti, og var leitarfólk bæði akandi og gangandi auk þess sem þyrla Landhelgisgæslunnar leitaði úr lofti. Leitin var árangurslaus en blautt færi, ísskarir og veður almennt gerði leitarmönnum austantil á svæðinu erfitt um vik.